Íslendingar að mótmæla, húrra.

Undur og stórmerki hafa þurft að gerast til þess að Íslendingar drattast til þess að mótmæla. Þvílíkur mannfjöldi sem mætir í þessi mótmæli er því ekki bara undur heldur einnig stórmerki ... og SEX LAUGARDAGA Í RÖÐ.

Það er kominn tími til þess að sumir hugsi sér aðeins um, er mögulegt... oggu pínulítill möguleiki, á að mótmælin séu út af einhverju sem ég gerði eða gerði ekki? Ef þú svarar þessari spurningu játandi þá ert þú væntanlega yfirmaður í banka, fjármálaeftirliti, seðlabanka eða ráðherra ... þá er kominn tími til þess að verðlauna mótmælendur fyrir friðsamleg og staðföst mótmæli.

Það má líta á þetta eins og að ganga í gin ljónsins, en það er betra en að vera kastað fyrir ljónin.


mbl.is Þúsundir mótmæla á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímanleg færsla um nafnleysi

http://bjornlevi.blog.is/blog/bjornlevi/entry/706255/

Færði til bókar færslu í gær klukkan rétt rúmlega 17:00 ... skemmtileg tilviljun að aðeins 4 klukkustundum seinna kemur svona ágæt staðfesting á því sem ég var að segja (viðfangsefnið það sama, vettvangurinn svipaður).


mbl.is Fékk aðeins í magann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til þeirra sem efast um að kosningar séu góð hugmynd á þessum síðustu og verstu tímum

Þá langar mig bara til að benda á að landið þar sem þetta hófst allt í að þessu sinni er búið að fara í gegnum kosningar og er í stjórnarskiptaferli sem lýkur 20 janúar á næsta ári.

Trúi því ekki að það sé flóknara á Íslandi ... í þúsund sinnum minni þjóð.


mbl.is Kosningum ekki flýtt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Internetið og nafnleysi

Eitt af undrum internetsins er eiginleikinn að vera nafnlaus. Sá eiginleiki er hins vegar jafn hættulegur og hann er frelsandi og því verður maður að fara mjög varlega með þetta undur.

Tökum sem dæmi athugasemdir við blog eða fréttir. Ef athugasemdin er gagnrýni og skráð undir nafni þá skynjar maður að sá nafngreindi er tilbúinn til þess að rökstyðja gangrýni sína, ef athugasemdin er hins vegar nafnlaus þá er hún sjálfkrafa ómarktæk og ósönn.

Jákvæð athugasemd getur verið alveg jafn ómarktæk ef nafnlaus, til dæmis gæti greinarhöfundur verið að koma eigin máli til stuðnings (vel þekkt kænskubragð í nafnlausa heiminum). 

 Þeir sem eru vanir að lesa greinar og svör þar sem nafnleysi er gegnumgangandi læra mjög fljótlega að sía út athugasemdir sem eru bull, hins vegar eru alltaf einhverjir sem falla í gildru nafnlausra athugasemda. Almennt séð eru þessar gildrur nefndar eftir tröllum (trolling). Aðferðin er að skilja eftir skilaboð sem öðrum finnst óviðeigandi og sjá svo umræðurnar leysast upp í rifrildi. 

Bið því fólk að vara sig á nafnlausum athugasemdum og setja gangrýna hugsun í fjórhjóladrifið þegar það les nafnlausar athugasemdir.

 


Stjórnkerfi sem virkar

Hugbúnaðarkerfi er samansafn af ferlum sem í starfa í sameiningu að ákveðnu markmiði. Hvert ferli fyrir sig hefur sínar skilgreiningar og hlutverk í kerfinu. Stundum virka tvö ferli í kerfinu vel saman og stundum ekki, kannski vegna þess að hlutverk eða útreikningar annar ferlisins hlýðir ekki skilgreiningum hins ferlisins að fullu.

Svona vandamál getur komið upp vegna breytinga í umhverfinu sem krefjast aðlagana á einstökum ferlum, breyting á einum stað getur valdið keðjuverkun sem krefst breytinga á öðrum ferlum. Stór hluti af hugbúnaðarþróun er að greina þessi vandamál og vinna að lausn þeirra, bæði fyrir og eftir breytingar á kerfinu. Aðrir eiginleikar hugbúnaðarþróunar eru gríðarleg þekking í hönnun kerfa, greiningu á afköstum, aðferðum til þess að finna hnökra í kerfinu og leiðum til þess að þróa kerfið í nýjar áttir.

Ég vil því að öðrum ólöstuðum leggja fram þá tillögu að tölvu- og hugbúnaðarverkfræðingar séu að jafnaði færastir í því að búa til kerfi sem virka. Stór staðhæfing og ath að ég segi "að jafnaði".

Ég vil því leggja til að stjórnkerfið verði endurhannað með það í huga að það sé ekkert annað en hver annar hugbúnaður. Enn frekar þá krefst ég þess að stjórnkerfið fylgi hugmyndum um opinn hugbúnað. Það segir sig sjálft að mínu mati en það hefur ákveðnar hliðarverkanir sem eru kannski ekki svo augljósar.

Alveg eins og alþingi er opið öllum þá eiga öll ráð og fundir að vera opnir, ekki bara niðurstöðurnar. Það er alveg jafn mikilvægt að vita ástæður hverrar ákvörðunar fyrir sig eins og að vita hvaða ákvarðanir voru teknar. Ástæður eins og "viðræður eru á viðkvæmu stigi" eru hreint bull og hjálpa ekkert til við að finna lausn á þeim vandamálum sem verið er að glíma við. Þessi aðferðafræði hefur aðrar hliðarverkanir sem eru þær að sum mál eru vernduð til dæmis persónulögum. Að sjálfsögðu á þessi opna umræða ekki við slík mál enda er hún samkvæmt skilgreiningu ekki opinber. Einnig getur vel verið að önnur kerfi (erlendis frá) geri ekki ráð fyrir opnum fundarhöldum og því ber að virða þess háttar skil, þetta þekkist sem þrenging á skilgreiningu.

Það mikilvægasta er að fjölmiðlar og almenningur hafa fullan aðgang að öllu sem telst opinbert innan kerfisins, algert gagnsæi er lykillinn að því trausti sem stjórnvöld VERÐA að hafa frá almenning og fjölmiðlum.


Aðgerðir til farsælla samfélags

Til þess að samfélag geti talist farsælt þá þarf það að uppfylla fjórar grunnþarfir:

  • Menntun
  • Heilbrigði
  • Menning
  • Samskipti/samgöngur

Án menntunar er enginn grundvöllur fyrir nýsköpun. Án heilbrigðis er framtíðin ótrygg. Án menningar er ekki samfélag og án samskipta og samgagna þá er engin menning.

Á erfiðum tímum þá eru það þessi grunnatriði sem samfélagið þarf að einbeita sér að til þess að eiga framtíð. Því miður er það ekki nóg.

Í erfiðu umhverfi þurfum við að sérhæfa okkur fyrst og þróa okkur svo. Tökum sem dæmi að fyrsta aðgerðin væri að stofna orkuháskóla eins og einhversstaðar var nefnt. Heimurinn er mjög meðvitaður um orkuþörf og gróðurhúsaáhrif og fátt er eins verðmætt og þekking á orku/orkunýtingu. Þetta er málaflokkur sem Íslendingar gætu auðveldlega nýtt sér til framdráttar í dag og til framtíðar. Leggjum allt okkar kapp á að verða með þeim fremstu í rannsóknum og þekkingu á framtíðarorkulindum.

Við þekkjum vel bölið sem er einhæfing. Okkar aðal atvinnugrein til margra áratuga var sjávarútvegur. Það er erfitt að koma af stað skriðþunga í nýja aðalatvinnugrein, en við höfum nokkrar sem gefa vel af sér og nýtast vel til þess að halda okkur á floti (ég er ekki að tala um álið). Þegar skriðþungi næst á þá auðlind sem við ákveðum (orku) þá þurfum við að velja fleiri svið til þess að sérhæfa okkur á. Þar liggur næst ferðamannaiðnaður, þekkingarþróun, útflutningur á lúxusvörum og síðast en ekki síst þróunaraðstoð.

Þróunaraðstoð? Við þurfum hjálp til þess að koma þessari áætlun á flot og við þurfum að gjalda greiðann með því að taka þátt í að hjálpa öðrum að komast á flot líka.

Það eru auðvitað fleiri atriði sem þarf að huga að og það eina sem ég geri ráð fyrir er að við komumst á það stig að geta hafist handa í uppbyggingu. En það er einmitt málið, við komumst aldrei að uppbyggingunni nema við vitum hvað það er sem við ætlum að gera. Án þeirrar áætlunar þá sitjum við föst í svaðinu, hjökkum þar þangað til okkur er rétt silfurskeið. Ekki líklegt að það sé vænlegt til árangurs á næstunni.

Það er löngu orðið tímabært að fá að heyra áætlun um hver stefna Íslendinga verður í framtíðinni, þegar það er komið þá getum við unnið að leiðum til þess að komast þangað.


Domino áhrif

... og hver stendur á toppnum?

Það er alveg víst að ástæður fallsins eru margþættar en það er ljóst að þeir sem höfðu ólina sem víðasta lentu fyrst í erfiðleikum og af því að fyrsti kubburinn féll (Lehman brothers var meðal fyrstu) þá hófst keðjuverkun sem gerði það að aðilar með sífellt hertari ól lentu í lánakröfum og þurftu þar af leiðandi að leita í sínar lánakröfur.

Smá saman dreifist domino púslið og kubbar falla einn af öðrum. Vegna þess hversu domino netið er þétt, í staðinn fyrir að vera ein röð af kubbum þá hefur lítið þýtt að stöðva fallið á einum stað því kubbarnir hrynja í kring.

Allir brugðust skjótt við til þess að reyna að leysa vandann og stöðva fallið í heild sinni og það leiddi til dæmis til þess að fórnarlömb neðst í keðjunni voru ákveðin ... þau sem höfðu augljósar hliðarverkanir (domino endagata) ... og innheimtukröfur settar í gang sem var vitað að væri ekki hægt að standast við. Fljótfærnisákvörðun sem eftir á að hyggja var skot í fótinn frekar en eitthvað annað.


mbl.is Segja að eignir hafi verið umfram skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taktísk tilkynning

Einfaldlega sniðin til þess að minnka líkurnar á því að Icesave aðilar skipti sér af IMF láninu... eða allavega minnki kröfurnar. Mjög sniðugt :)

Nú stendur aftur á móti á stjórnvöldum að standa við stóru orðin ef Icesave aðilar komi með einhverjar kröfur, neita láninu á þeim forsendum að lántakan með utanaðkomandi skilyrðum vegna einkafyrirtækis sé ekki til hags Íslands sem þjóðar.

Viðbót: Áhugavert að Geir segir "íslenska ríkið ætlar ekki að borga skuldir þessara einkaaðila" ... sem er einmitt sú staðhæfing Davíðs sem kom svo illa út í Bretlandi. ... Styð hann fullkomlega í því auðvitað :)


mbl.is Við hættum frekar við lánið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stækkum kökuna.

Vandamálið er mjög einfalt. Segjum sem svo að efnahagurinn sé 100 krónur og það búi 10 manns í þessum ímyndaða efnahag. Hver um sig á 10 krónur. Hagvöxtur er 10% þannig að eftir eitt ár þá er efnahagurinn orðinn 110 krónur og allir eiga 11 krónur í vasanum.

Ef dæmið er þannig að einn á 11 krónur, átta eiga 10 krónur og einn á 9 krónur þá eftir 1 ár í 10% hagvexti þá á einn 12,1 krónu, átta eiga 11 krónur og einn á 9,9 krónur. Hlutfallslegur munur á milli ára hefur aukist af því að einfaldur prósentureikningur segir okkur að sama prósenta af stórri tölu er stærri en sú prósenta af lægri tölu.

Í þessu umhverfi þar sem einn hefur stærri köku en aðrir þá eykst munur á milli manna ár frá ári, vel hönnuð stéttaskipting í raun. Kannski kann fólk ekki sagnfræðina sína nógu vel en mannkynið hefur þegar gengið í gegnum þær hörmungar sem fylgja stéttskiptinu (og sumir hafa ekki ennþá lært meira að segja) en Íslendingar ættu að nýta tækifærið og afstýra því að búa til stéttskipt þjóðfélag (já já, það er stéttskipting nú þegar en hún er ekki svo djúp að hægt sé að snúa við).

Íslendingar eru stoltir af lýðræði landsins og menningu, við vitum að innst inni þá eru allir jafnir (dálítið erfitt að neit því þegar við getum rakið ættir okkar sameiginlega aftur um, hvað var það, 11 - 12 ættliði?). Hins vegar þá er hreina samkeppnisstefnan þeim göllum búin að hún býr til misskiptingu. Hrein samvinna aftur á móti hefur þá galla að vera óhagkvæm því hún á í erfiðleikum með að aðlagast breytingum. Því þarf bæði að vera samkeppni á samvinnugrundvelli eða samvinna á samkeppnisgrundvelli ... allavega blanda af samkeppni og samvinnu með það að leiðarljósi að verðlaun eru gefin fyrir að stækka kökuna en ekki taka stærri sneið.

Hvað á ég við með því? Í dæminu hérna að ofan þá stækkaði kakan um 10% á ári, jókst úr 100 í 110 en jafnframt í því umhverfi þar sem einn átti stærri sneið, þá stækkaði sneiðin hans mest á meðan sneið þess sem minnst átti stækkaði minnst. Eðlilegra hefði verið að ef kakan stækkar þá stækkar sneið allra jafn mikið. Mótrök markaðshyggjunnar eru að þá hafi fólk ekki hvatningu til þess að stækka kökuna því þeirra skerfur fyrir aukna vinnu verður svo lítill ... það er hins vegar argasta bull. Ekki gera ráð fyrir að fólk séu letingjar og aumingjar ... ef verðlaun eru veitt fyrir að stækka kökuna þá fer fólk og stækkar kökuna, það er svo einfalt.

Með því hugarfari þá má athuga að ef einn tekur lán þá er verið að lánsetja hluta af kökunni, og þar af leiðandi sneiðum allra í henni... andstætt því að í misskiptingu þá á í raun hver sem tekur lán einungis að vera að skuldsetja sína sneið, ekki sneiðar annara. Ekki eins og því hafi verið framfylgt undanfarið.

Samkeppnisstefnan er að grunni til nákvæmlega eins og samvinnustefna, ef allir taka þátt. Samvinna virkar ekki nema með þáttöku allra og samkeppni ekki heldur. Eitt af vandamálum samkeppnisstefnunnar er að það er gott að drepa samkeppnina því þá þarf ekki að huga eins mikið af hagkvæmninni... þess háttar verðlaun (engin samkeppni) núllar út helsta kost samkeppnisstefnunnar (hagkvæmni). Samvinna að sama skapi glatar trausti ef ekki allir taka þátt. Kerfið sem þarf því að vera er samblanda samvinnu og samkeppni þar sem samkeppni er verðlaunuð þar sem hagkvæmni er ábótavant og samvinna verðlaunuð þar sem traust er uppurið (stjórnvöld taka við).

Á takkanum situr svo almenningur með forseta og fjölmiðla sem sína bandamenn og heldur stjórnvöldum í horfinu.


Ég var að koma af kosningavöku hérna í USA

... og það voru mikil fagnaðarlæti.

Þegar ég fór úr húsi og rölti heim þá heyrðist greinilegur ómur af fagnaðarlátum, svona svipað og maður heyrir frá Laugardalsvellinum þegar stelpurnar okkar eru að spila og er sjálfur á Suðurlandsbraut.

Ísland næst takk.


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband