23.11.2008 | 22:48
Opið stjórnkerfi
Stjórnkerfi og í raun öll kerfi hafa ákveðin tilgang. Hver hluti kerfisins er sérstaklega hannaður til þess að glíma við ákveðin vandamál eða til þess að veita ákveðna þjónustu.
Hugbúnaðarkerfi er hannað samkvæmt þörfum notenda (annars telst það vera gangslaust). Tilteknum aðferðum er beitt til þess að votta hvern hluta hugbúnaðarkerfisins og samþættingu þessara hluta. Þessar aðferðir vottunar eru margvíslegar en markmið þeirra að er til verði nothæft kerfi sem þjónar þörfum notenda.
Þeir sem þekkja til hugbúnaðarþróunar ættu auðveldlega að geta séð fyrir sér hvernig hægt er að hanna stjórnkerfi eins og hvert annað forrit. Þeir sem minna þekkja til þessara aðferða gætu ímyndað sér misgóð hugbúnaðarkerfi og ályktað að stjórnkerfi líkt og þau forrit verði bara meingölluð og því síður skárri en núverandi stjórnkerfi.
Það sem fólk kannski gerir sér ekki grein fyrir er að hugbúnaðarþróun er ekki einungis það ferli að búa til forrit, heldur einnig að fylgjast með vinnslu þess, afköstum og göllum og vinna að úrbótum. Hugbúnaðarferlið er eins og í núverandi stjórnkerfi, uppfærslur og aðlaganir til betri afkasta og hagkvæmni. Munurinn er sá að hugbúnaðarþróun notar mikið nákvæmari og betri aðferðir en núverandi kerfi þar sem fólk týnist spillingarneti og lögfræðiágreningi.
Ég vil því leggja til án þess að útskýra það nokkuð frekar að alþingi taki upp aðferðir hugbúnaðarþróunar. Þar eru alþingismenn hönnuðir kerfisins. Þeir fá hönnunar og breytingatillögur (feature requests) frá almenningi ásamt gallaskýrslum (bug reports) og gefa út gallalista (defect, exploit lists). Þeirra verk er að gera hönnunarleiðréttingar á þeim kerfum sem gallar finnast í eða breyta þeim samkvæmt nýju umhvefi eða breytingatillögum. Ýmis ráðuneyti, stofnanir og lögregla fylgjast með virkni kerfisins og hvort einhverjir séu að nýta sér þá galla sem eru þekktir og bregðast við á viðeigandi hátt.
Í hverjum kosningum kemur hver flokkur/frambjóðandi fram með ákveðnar breytingar/áherslur sem á að framkvæma í kerfinu og telst sá listi vera kosningasamningur þess flokks/frambjóðanda við kjósendur. Komi fram breytingatillaga sem enginn flokkur hefur á kosningasamning sínum þá þarf að leita til kjósenda til stefnumörkunar. Komi fram galli sem enginn kosningasamningur hefur ákvæði um þá þarf að loka þeim galla og leita til kjósenda.
Það er gríðarlega mikilvægt að alþingi hafi gott aðgengi að kjósendum og kjósendur einnig að alþingi vegna þess að kjósendurnir eru notendur kerfisins og eins og áður var sagt þá er kerfið gagnslaust ef það er ekki hannað samkvæmt þörfum notenda. Kosningakerfið þarf því að vera mjög aðgengilegt og einfalt í notkun.
Í opnu stjórnkerfi er einnig pláss fyrir opna stjórnmálaflokka. Ég vil fá að sjá stjórnmálaflokk sem er opinn öllum, hefur lifandi efnisskrá (Jóhann vinur minn jhaukur.blogspot.com er heilinn á bak við það) og frjálst kosningakerfi í uppröðun á lista. Hlutverk frambjóðenda er einungis að koma þeim málum sem efnisskráin segir til um... þeir geta að sjálfsögðu einnig verið hugmyndasmiðir og reynt að koma þeim hugmyndum inn á efnisskránna, en til þess þarf það sem þeir setja þar inn að vera samþykkt af hverjum þeim sem sem hafa þar skoðun á. Helsta hlutverk þeirra er að bera traust kjósenda til þess að framfylgja efnisatriðum efnisskráarinnar... sem knýr þá alls ekkert til þess að vera hugmyndasmiði.
Með aðferðum hugbúnaðarþróunar, opna stjórnmálaflokksins og lifandi efniskrár (kosningasamnings) þá tel ég að kjósendur geti betur treyst því að atkvæði þeirra komist til skila í aðgerðum sem eru þeim til góða.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.