10.11.2008 | 17:08
Internetið og nafnleysi
Eitt af undrum internetsins er eiginleikinn að vera nafnlaus. Sá eiginleiki er hins vegar jafn hættulegur og hann er frelsandi og því verður maður að fara mjög varlega með þetta undur.
Tökum sem dæmi athugasemdir við blog eða fréttir. Ef athugasemdin er gagnrýni og skráð undir nafni þá skynjar maður að sá nafngreindi er tilbúinn til þess að rökstyðja gangrýni sína, ef athugasemdin er hins vegar nafnlaus þá er hún sjálfkrafa ómarktæk og ósönn.
Jákvæð athugasemd getur verið alveg jafn ómarktæk ef nafnlaus, til dæmis gæti greinarhöfundur verið að koma eigin máli til stuðnings (vel þekkt kænskubragð í nafnlausa heiminum).
Þeir sem eru vanir að lesa greinar og svör þar sem nafnleysi er gegnumgangandi læra mjög fljótlega að sía út athugasemdir sem eru bull, hins vegar eru alltaf einhverjir sem falla í gildru nafnlausra athugasemda. Almennt séð eru þessar gildrur nefndar eftir tröllum (trolling). Aðferðin er að skilja eftir skilaboð sem öðrum finnst óviðeigandi og sjá svo umræðurnar leysast upp í rifrildi.
Bið því fólk að vara sig á nafnlausum athugasemdum og setja gangrýna hugsun í fjórhjóladrifið þegar það les nafnlausar athugasemdir.
Athugasemdir
Get tekið undir þetta hjá þér Björn Leví.
Sjálfur skrifa ég oft athugasemdir undir nafnleysi. Kannski vegna þess að ég er ekki bloggari sjálfur.
Það má ekki setja alla nafnleysingja undir einn hatt. Ég legg mig ávallt fram um að vera málefnalegur í athugasemdum, sneiða hjá persónulegum ávirðingum, slappa öllu skítkasti og sleggjudómum og færa rök fyrir skoðunum. Ef þú rekst á athugasemdir frá mér í bloggheimum getur þú sannreynt það sjálfur.
Þá getur bloggari alltaf haft samband þar sem netfang er skilið eftir og hann getur líka eytt út færslum.
Það geta verið ýmsar ástæður fyrir nafnleysi. Þær þurfa ekki að vera annarlegar þó þær séu það e.t.v. stundum. Þeir sem skrifa undir nafnleysi ættu að gera jafn ríkar kröfur til sjálfra sín og þeir sem skrifa undir nafni, annars gera þeir sig ómarktæka sjálfir.
Gestur H (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 17:18
Sá sem er tilbúinn til að rökstyðja gagnrýni sína gerir það með því að setja fram rök, ekki nafn. Það er því miður sterkur þáttur í íslenskri "rökræðuhefð" að spyrja hver haldi gagnrýni fram, fremur en að spyrja að rökum. Um leið verður umræðan leiðinlega persónuleg. Nafnlausar athugasemdir verða ekki sjálfkrafa ósannar, þvert á móti, þær þröngva lesandann til að íhuga kjarna þess sem skrifað er, fremur en að afgreiða athugasemdina á persónulegum forsendum. Fleiri mættu skrifa nafnlaust á netinu.
Svartagall, 10.11.2008 kl. 17:21
Alveg rétt að nafn getur verið alveg jafn hættulegt fyrir röksemdafærslu eins og nafnleysi. Nefndi dæmi um það fyrir einhverjum færslum síðan (þú trúir ekki stærðfræðikennaranum sem segir að stæðfræði sé mikilvæg af því að hann er hlutdrægur).
Þess háttar röksemdafærsla er alveg jafn gölluð og sú nafnlausa því það eina sem skiptir máli eru rökin.
Ég er einungis að minna fólk á að fara í annan gír þegar það les nafnlausar athugasemdir ... og að sjálfsögðu má bæta við nefndum athugasemdum þar sem spurning er um hlutdrægni. Nafnleysi er samt algengara form hlutdrægni á netinu.
Björn Leví Gunnarsson, 10.11.2008 kl. 18:54
fólk verður náttúrulega að gæta orða sinna í þessum heimi,
ég get alveg sagt fólki að fara til helvítis, en ef að ég geri það undir barnalegu nafni eins og t.d. Svartagall þá er ég bara falskur og ekki verðugur orða minna.
ég kem fram undir eigin nafni með mynd af mér og fjölskyldu minni á síðunni minni og þarf þar með að standa undir því sem ég segi.
en tröllin geta sagt hvað sem er um hvern sem er undir fölsku flaggi, og það segir meira um viðkomandi heldur en það fólk sem verður fyrir barðinu á slíkum smámennum.
takk fyrir
Kristleifur Guðmundsson, 11.11.2008 kl. 21:59
Góðar pælingar, Björn. Ætli "nafnleysið" sé jú ekki öllu flóknara en margir vilja vera láta. Fullt af fólki skrifar undir nikki. Ýmsar upplýsingar koma fram í þjóðfélaginu undir nikki sem ekki kæmu fram öðruvísi. Það eru margir sem hafa mikið að segja en hafa einfaldlega enga löngun að bendla persónu sína við umræðuefnið sjálft. Þetta eru óvart oft þeir sem eru oft góðir pennar og text að sjá hlutina í áhugaverðu ljósi. Og ekki endilega þeir sem upplifa heiminn í einnarlínufrösum.
Það virðist líka lenska að geta talað af háum stalli niður til persóna undir nikki sem smámenni, falskar, barnalegar eða aumingja og þar fram eftir götum. Slíkt orðaval lýsir kannski betur þeim sem notast við slíkar lýsingar, alltaf létt að níðast á öðrum í krafti þess að viðkomandi er stimplaður á ennið. Ég myndi kalla hluta af þessu draugahræðslu og einnig fordóma fyrir því sem menn ekki skilja. Þetta hed ég tengist líka ákveðinni skiptingu í þjóðfélaginu að menn telji sig tilheyra betra strata en ýmsir aðrir undir þeim.
Það er jú alltaf einhver manneskja á bak við nikkið. Aðeins brot af þeim manneskjum eru svona ofsóknarperrar sem nafnleysishræðslupúkar óttast. Meðan ég man, þá eru agressívustu textarnir sem ég hef séð frá bloggara frá einum sem skrifar undir fullu nafni. Utan einn nafnlausann sem aðeins samdi dónakvæði. Skiptir engu hverjir það eru.
Innihald texta er vissulega það sem skiptir öllu máli. Það argument gengur í öllum almennilegum skólum. Og, ef menn eru góðir að lesa milli lína, þá er nafnakall og athugun að þessi eða hinn sem skrifaði sé (bla bla) oft meira truflun á rökhugsun til að greina textann eða innihald hans. Þetta ætti að vera frekar augljóst þeim okkar sem hafa farið í háskólanám og/eða kennt í háskólum. Ógagnrýnin persónudýrkun truflar skynbragð á málefninu.
Flestir þeir óteljandi bloggarar sem eru að blogga til að upphefja eigin persónu eiga klárlega við annars konar vandamál að stríða, vandamál sem ég held að endurspegli skýrar eitt aðal vandamálið í þjóðfélaginu í dag. Narcissus er ekki dauður og birtist í þessum bloggum. Þessir skrifa jú verstu bloggin og innihaldslausustu, lélegustu textana. Eru samdauna launsátursperrunum og er margfalt stærri hópur. Beittari pennar eru óvart mjög oft undir nikki, af öllum þeim aragrúa bloggs sem maður rennir augum yfir. Gæti nefnt ótal dæmi um þetta.
Það er svo ekki lítið áhugavert félagslegt fyrirbæri að menn séu frjálsari í skrifum þegar þeir stíga inn í nikk-persónu. En stundum er það þannig með frelsið að það gengur of langt eða aðrir (sem kannski skynja hvað þeir sjálfir eru heftir í tjáningu) verða reiðir við að fá ekki þá athygli sem þeir þurfa. Þetta er svona öfugt við teoríuna um að "everybody loves a winner."
Vonandi er hægt að ræða hlutina á svona nótum í staðinn fyrir þurfa að tékka hvort ég sé skyldur ykkur eða eigi flottari iPod. Létt mál að tékka á því fyrrnefnda en vonandi skiptir það bara engu máli.
Ólafur Þórðarson, 12.11.2008 kl. 05:58
Takk fyrir það :)
Má kannski nefna í samantekt að "nikk" getur orðið eilítið öðruvísi en "nafnleysi" því sami einstaklingur heldur oft sama nikki í gegnum margar umræður og byggir þannig upp ákveðið traust gagnvart því nikki (svo lengi sem það nikk er varið með lykilorði svo enginn annar geti notað það, maður er nokkuð viss semsagt að það sé alltaf sama alvöru nafn á bak við þetta nikk).
Slíkt traust á nikk er næstum jafn mikils virði og traust á persónuna sem notar það, oft meira virði því nikkið gefur nokkurs konar hreina samvisku og hlutleysi gagnvart þeim fordómum sem persónan gæti orðið fyrir undir eigin nafni. Í staðinn er persónan dæmd út frá þeim orðum sem hún hefur látið frá sér undir nikkinu.
Ábyrg notkun á nikki er því skilgreiningarlega hlutlausasta aðferðin til rökræðna því það er einungis hvað þú segir sem skiptir máli, ekki hver þú ert.
Björn Leví Gunnarsson, 12.11.2008 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.