10.11.2008 | 03:10
Aðgerðir til farsælla samfélags
Til þess að samfélag geti talist farsælt þá þarf það að uppfylla fjórar grunnþarfir:
- Menntun
- Heilbrigði
- Menning
- Samskipti/samgöngur
Án menntunar er enginn grundvöllur fyrir nýsköpun. Án heilbrigðis er framtíðin ótrygg. Án menningar er ekki samfélag og án samskipta og samgagna þá er engin menning.
Á erfiðum tímum þá eru það þessi grunnatriði sem samfélagið þarf að einbeita sér að til þess að eiga framtíð. Því miður er það ekki nóg.
Í erfiðu umhverfi þurfum við að sérhæfa okkur fyrst og þróa okkur svo. Tökum sem dæmi að fyrsta aðgerðin væri að stofna orkuháskóla eins og einhversstaðar var nefnt. Heimurinn er mjög meðvitaður um orkuþörf og gróðurhúsaáhrif og fátt er eins verðmætt og þekking á orku/orkunýtingu. Þetta er málaflokkur sem Íslendingar gætu auðveldlega nýtt sér til framdráttar í dag og til framtíðar. Leggjum allt okkar kapp á að verða með þeim fremstu í rannsóknum og þekkingu á framtíðarorkulindum.
Við þekkjum vel bölið sem er einhæfing. Okkar aðal atvinnugrein til margra áratuga var sjávarútvegur. Það er erfitt að koma af stað skriðþunga í nýja aðalatvinnugrein, en við höfum nokkrar sem gefa vel af sér og nýtast vel til þess að halda okkur á floti (ég er ekki að tala um álið). Þegar skriðþungi næst á þá auðlind sem við ákveðum (orku) þá þurfum við að velja fleiri svið til þess að sérhæfa okkur á. Þar liggur næst ferðamannaiðnaður, þekkingarþróun, útflutningur á lúxusvörum og síðast en ekki síst þróunaraðstoð.
Þróunaraðstoð? Við þurfum hjálp til þess að koma þessari áætlun á flot og við þurfum að gjalda greiðann með því að taka þátt í að hjálpa öðrum að komast á flot líka.
Það eru auðvitað fleiri atriði sem þarf að huga að og það eina sem ég geri ráð fyrir er að við komumst á það stig að geta hafist handa í uppbyggingu. En það er einmitt málið, við komumst aldrei að uppbyggingunni nema við vitum hvað það er sem við ætlum að gera. Án þeirrar áætlunar þá sitjum við föst í svaðinu, hjökkum þar þangað til okkur er rétt silfurskeið. Ekki líklegt að það sé vænlegt til árangurs á næstunni.
Það er löngu orðið tímabært að fá að heyra áætlun um hver stefna Íslendinga verður í framtíðinni, þegar það er komið þá getum við unnið að leiðum til þess að komast þangað.
Athugasemdir
Drullaðu þér heim og takktu þátt í pólitík! x-Leví :)
Markús (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 06:48
úff... þú gerir þér örugglega ekki alveg grein fyrir hvað það er erfitt að vera hérna úti og geta ekki að minnsta kosti mætt á mótmælin.
Svo er líka ofsalega erfitt að fylgjast með öllu sem er að gerast bara í gegnum fjölmiðla. Maður þarf að fara í gegnum gríðarlega mikið efni til þess að fá "almennt" sjónarhorn á það hvað er í gangi heima.
Björn Leví Gunnarsson, 10.11.2008 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.