16.9.2009 | 16:48
Tryggingar
Það er mikið talað um tryggingar hérna í US núna. Aðallega tryggingar í heilbrigðiskerfi. Án þess að fara neitt sérstaklega út í hversu brenglað þetta heilbrigðistryggingakerfi er þá langar mig til þess að minna fólk á hvað tryggingar snúast um.
Grunnhugmynd trygginga er að hópur fólks kemur sér saman um að greiða fyrir óhöpp sem einstaklingar úr hópnum verða fyrir. Tryggingar koma þannig út að einhverjir í hópnum koma til með að borga meira en þeir fá til baka. Það er "veðmálið" á líkurnar að hver og einn lendi í slysi eða eitthvað. Sumir lenda í slysum, aðrir ekki. Ef enginn (fáir) slasast þá á allur hópurinn fullt af peningum á bankabók og getur annað hvort greitt öllum hlutaðeigandi út það sem þeir hafa borgað eða lækkað greiðslur inn á reikninginn.
Hvað er þá tryggingafélag að gera fyrir okkur? Það tekur við peningnum sem annars færi á sameiginlegan bankareikning og býr til reglur um hvernig er greitt út fyrir óhöpp. Ef allt leikur í lyndi þá hirðir tryggingafélagið iðgjöldin... borgar ekkert til baka og lækkar heldur ekki iðgjöld.
Hversu erfitt væri að reka tryggingafélag sem myndi bara halda utan um þennan sameiginlega bankareikning, taka sem þjónustugjald fyrir það vextina af iðgjöldunum eða þar um bil... en annars líta á inneignina sem sparifé þeirra sem kaupa af þeim tryggingu (jöfn dreifing)?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.