Stækkum kökuna.

Vandamálið er mjög einfalt. Segjum sem svo að efnahagurinn sé 100 krónur og það búi 10 manns í þessum ímyndaða efnahag. Hver um sig á 10 krónur. Hagvöxtur er 10% þannig að eftir eitt ár þá er efnahagurinn orðinn 110 krónur og allir eiga 11 krónur í vasanum.

Ef dæmið er þannig að einn á 11 krónur, átta eiga 10 krónur og einn á 9 krónur þá eftir 1 ár í 10% hagvexti þá á einn 12,1 krónu, átta eiga 11 krónur og einn á 9,9 krónur. Hlutfallslegur munur á milli ára hefur aukist af því að einfaldur prósentureikningur segir okkur að sama prósenta af stórri tölu er stærri en sú prósenta af lægri tölu.

Í þessu umhverfi þar sem einn hefur stærri köku en aðrir þá eykst munur á milli manna ár frá ári, vel hönnuð stéttaskipting í raun. Kannski kann fólk ekki sagnfræðina sína nógu vel en mannkynið hefur þegar gengið í gegnum þær hörmungar sem fylgja stéttskiptinu (og sumir hafa ekki ennþá lært meira að segja) en Íslendingar ættu að nýta tækifærið og afstýra því að búa til stéttskipt þjóðfélag (já já, það er stéttskipting nú þegar en hún er ekki svo djúp að hægt sé að snúa við).

Íslendingar eru stoltir af lýðræði landsins og menningu, við vitum að innst inni þá eru allir jafnir (dálítið erfitt að neit því þegar við getum rakið ættir okkar sameiginlega aftur um, hvað var það, 11 - 12 ættliði?). Hins vegar þá er hreina samkeppnisstefnan þeim göllum búin að hún býr til misskiptingu. Hrein samvinna aftur á móti hefur þá galla að vera óhagkvæm því hún á í erfiðleikum með að aðlagast breytingum. Því þarf bæði að vera samkeppni á samvinnugrundvelli eða samvinna á samkeppnisgrundvelli ... allavega blanda af samkeppni og samvinnu með það að leiðarljósi að verðlaun eru gefin fyrir að stækka kökuna en ekki taka stærri sneið.

Hvað á ég við með því? Í dæminu hérna að ofan þá stækkaði kakan um 10% á ári, jókst úr 100 í 110 en jafnframt í því umhverfi þar sem einn átti stærri sneið, þá stækkaði sneiðin hans mest á meðan sneið þess sem minnst átti stækkaði minnst. Eðlilegra hefði verið að ef kakan stækkar þá stækkar sneið allra jafn mikið. Mótrök markaðshyggjunnar eru að þá hafi fólk ekki hvatningu til þess að stækka kökuna því þeirra skerfur fyrir aukna vinnu verður svo lítill ... það er hins vegar argasta bull. Ekki gera ráð fyrir að fólk séu letingjar og aumingjar ... ef verðlaun eru veitt fyrir að stækka kökuna þá fer fólk og stækkar kökuna, það er svo einfalt.

Með því hugarfari þá má athuga að ef einn tekur lán þá er verið að lánsetja hluta af kökunni, og þar af leiðandi sneiðum allra í henni... andstætt því að í misskiptingu þá á í raun hver sem tekur lán einungis að vera að skuldsetja sína sneið, ekki sneiðar annara. Ekki eins og því hafi verið framfylgt undanfarið.

Samkeppnisstefnan er að grunni til nákvæmlega eins og samvinnustefna, ef allir taka þátt. Samvinna virkar ekki nema með þáttöku allra og samkeppni ekki heldur. Eitt af vandamálum samkeppnisstefnunnar er að það er gott að drepa samkeppnina því þá þarf ekki að huga eins mikið af hagkvæmninni... þess háttar verðlaun (engin samkeppni) núllar út helsta kost samkeppnisstefnunnar (hagkvæmni). Samvinna að sama skapi glatar trausti ef ekki allir taka þátt. Kerfið sem þarf því að vera er samblanda samvinnu og samkeppni þar sem samkeppni er verðlaunuð þar sem hagkvæmni er ábótavant og samvinna verðlaunuð þar sem traust er uppurið (stjórnvöld taka við).

Á takkanum situr svo almenningur með forseta og fjölmiðla sem sína bandamenn og heldur stjórnvöldum í horfinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband